Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 330/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 330/2023

Fimmtudaginn 7. september 2023

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. júlí 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2023, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 17. febrúar 2022 og var umsóknin samþykkt 29. mars 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2023, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til þess að hún hefði hafnað starfi hjá B ehf. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun eftir að kærandi sendi frekari skýringar 26. júní 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. júní 2023, var fyrri ákvörðun staðfest með þeim rökum að sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. júlí 2023. Með bréfi, dags. 7. júlí 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 18. ágúst 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. ágúst 2023. Athugasemdir bárust ekki.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún óski eftir að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður atvinnuleysisbætur til hennar í tvo mánuði verði endurskoðuð. Ástæða niðurfellingarinnar hafi verið sú að kærandi hafi neitað viðtali hjá B ehf. þar sem hún hafi vitað að sú vinna og vinnutími myndi ekki henta henni. Því hafi hún ekki talið rétt að mæta í viðtal.

Kærandi sé einstæð með tvo unga drengi, fædda 2018 og 2021. Eldri drengurinn sé á leikskóla en sá yngri hafi ekki enn komist inn þrátt fyrir að vera í forgangi vegna fæðingargalla. Hún sé ný búin að fá bréf frá leikskólanum þess efnis að reynt verði að taka hann inn haustið 2023. Í millitíðinni, eftir fæðingarorlof kæranda, hafi hún verið á atvinnuleysisbótum.

Undanfarið hafi kærandi unnið eftir getu en vinnutími og fjöldi daga stjórnist algjörlega af því hvenær barnsfaðir hennar, eða í einstaka tilfellum annar aðstandandi, geti séð um drengina og þá aðallega þann yngri. Kærandi hafi verið að taka vaktir seinniparta og á kvöldin. Vinnumálastofnun meti það ekki svo að kærandi sé að sinna umönnunarskyldu sinni með því að taka vinnu seinniparta og á kvöldin eftir getu því samkvæmt stofnuninni sé aðeins hægt að taka tillit til umönnunarskyldu þegar foreldri neiti kvöld- eða næturvinnu, sem sé í tilviki kæranda sú vinna sem hún geti sinnt meðfram skyldu sinni sem móðir.

Kærandi bendi á að í [4. mgr.] 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar komi fram að Vinnumálastofnun skuli meta við ákvörðun um viðurlög hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg meðal annars vegna félagslegra aðstæðna hans sem tengist skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima.

Það að mismuna fólki vegna aðstæðna og þess vinnutíma sem það hafi tök á að sinna vinnu í þessum aðstæðum sé rangt og á engan hátt réttlætanlegt. Aðstæður fólks séu mismunandi og vinna frá kl. 8 til 17 sé vinna sem sé langt frá því að henta öllum. Kærandi sé að gera sitt besta til að sjá fyrir sér og sonum sínum, ásamt því að sinna þeim á sem bestan og ábyrgðarfyllstan hátt. Að mati kæranda sé verið að refsa henni fyrir það. Kærandi spyrji hvernig hún eigi að geta hugsað um tæplega tveggja ára dreng og unnið á sama tíma þegar hún hafi enga pössun fyrir hann. Jafnframt spyrji hún hvernig hún eigi að geta greitt húsaleigu og séð sonum sínum fyrir nauðsynjum þegar kerfið sé að mismuna eftir því á hvaða tíma sólahrings hún geti unnið. Að taka tillit til umönnunarskyldu í áðurnefndu ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar þurfi að eiga jafnt við um alla.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 17. febrúar 2022. Með erindi, dags. 29. mars 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að bótaréttur hennar væri 87%. Bótaréttur kæranda hafi síðar verið endurreiknaður og í kjölfarið hafi henni verið tilkynnt með erindi, dags. 30. ágúst 2022, að bótaréttur hennar hefði réttilega átt að vera 100% og að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar hefðu verið leiðréttar afturvirkt.

Þann 22. maí 2023 hafi Vinnumálastofnun borist tilkynning þess efnis að kærandi hefði hafnað starfi hjá B ehf. Um hafi verið að ræða starf við garðyrkju en kæranda hafi verið miðlað í starfið af Vinnumálastofnun. Samkvæmt upplýsingum frá B ehf. hafi kærandi hafnað umræddu starfi því hún væri þegar með vinnu.

Með erindi, dags. 12. júní 2023, hafi Vinnumálastofnun óskað skýringa á ástæðum þess að kærandi hefði hafnað starfi hjá B ehf. Skýringar kærandi hafi borist Vinnumálastofnun þann 18. júní 2023. Að sögn kæranda hafi hún hafnað því að mæta í atvinnuviðtal hjá B ehf. sökum þess að hún væri þegar í tilfallandi vinnu og vænti þess að verða síðar ráðin þar í 100% starf.

Í kjölfar þess að framangreindar skýringar hafi borist Vinnumálastofnun hafi kæranda með erindi, dags. 20. júní 2023, verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar væru felldar niður í tvo mánuði sökum þess að hún hefði hafnað því að mæta í atvinnuviðtal hjá B ehf. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 26. júní 2023 hafi Vinnumálastofnun borist frekari skýringar frá kæranda. Að sögn hennar hafi hún hafnað því að mæta í atvinnuviðtal hjá B ehf. því hún væri þegar í hlutastarfi. Starfshlutfall hennar réðist af því hvenær barnsfaðir hennar, sem væri í fullri vinnu, gæti sinnt tveimur sonum þeirra. Yngri sonur hennar væri ekki með pláss á leikskóla og því hafi hún ekki haft tök á því að starfa á dagvinnutíma. Meðal annars af þeim ástæðum hafi kærandi ekki getað tekið umræddu starfi. Kærandi hafi talið að ekki hefði verið tekið tillit til umönnunarskyldu hennar gagnvart sonunum. Að sögn hennar væri hún jafnframt með frjókornaofnæmi sem kæmi í veg fyrir að hún gæti sinnt umræddu starfi hjá B ehf. Kærandi hafi þar að auki greint frá því að hún vonaðist til þess að vera ráðin í 100% starf hjá núverandi vinnuveitanda þegar yngri syni hennar yrði úthlutað plássi á leikskóla. Kærandi hafi óskað eftir því að mál hennar yrði skoðað að nýju.

Með erindi, dags. 30. júní 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að mál hennar hefði verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna. Niðurstaða Vinnumálastofnunar væri hins vegar að staðfesta bæri fyrri ákvörðun í máli hennar, enda hefði sú ákvörðun að geyma efnislega rétta niðurstöðu þrátt fyrir að ný gögn hefðu borist í máli hennar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. liður 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.

Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað því að mæta í atvinnuviðtal hjá B ehf. Henni hafi í kjölfarið verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í athugasemdum með 57. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé tekið fram að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem bjóðist. Ástæðan sé einkum sú að atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og þykja megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við því að hafna starfi.

Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna því að mæta í atvinnuviðtal hafi verið réttlætanleg en í 4. mgr. segi orðrétt:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á því að mæta í atvinnuviðtal með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Þær skýringar sem kærandi hafi veitt fyrir ástæðu höfnunar á atvinnuviðtali lúti einkum að því að hún hafi ekki getað tekið umræddu starfi því hún beri umönnunarskyldu gagnvart tveimur sonum sínum. Yngri syni hennar hafi ekki enn verið úthlutað plássi á leikskóla og því hafi kærandi ekki getað tekið umræddu starfi, en um hafi verið að ræða starf á dagvinnutíma. Kærandi hafi í rökstuðningi sínum í kæru vísað til 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þess efnis að Vinnumálastofnun sé heimilt að meta hvort ákvörðun um höfnun á starfi hafi verið réttlætanleg, meðal annars vegna félagslegra aðstæðna eða umönnunarskyldu vegna ungra barna. Í athugasemdum með 57. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar segi að meta þurfi aðstæður fjölskyldu hins tryggða heildstætt. Sérstaklega sé ítrekað að það að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma teljist ekki réttlæta höfnun á starfi. Fyrir liggi að umrætt starf hjá B ehf. hafi verið á dagvinnutíma. Skýringar kæranda þess efnis að vinnutími starfsins hafi ekki hentað henni vegna þeirrar umönnunarskyldu sem hún beri gagnvart börnum sínum, séu því að mati Vinnumálastofnunar ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á því að mæta í atvinnuviðtal, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafi jafnframt í skýringum sínum til Vinnumálastofnunar skýrt frá því að hún sé með frjókornaofnæmi, sem myndi gera henni erfitt að sinna umræddu starfi hjá B ehf. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skuli allar upplýsingar um vinnufærni umsækjanda koma fram í umsókn um atvinnuleysisbætur og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum. Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. laganna sé Vinnumálastofnun heimilt að taka til aðstæðna þess sem ekki geti sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Skilyrði þess sé þó að fyrir liggi vottorð sérfræðilæknis og að atvinnuleitandi hafi áður tilkynnt stofnuninni um skerta vinnufærni sína. Að öðrum kosti geti komið til viðurlaga samkvæmt 59. gr. laganna. Kærandi hafi ekki áður greint Vinnumálastofnun frá því að hún sé með frjókornaofnæmi og ekki liggi fyrir vottorð frá lækni.

Þá hafi kærandi greint frá því að hún sé þegar í hlutastarfi. Starfshlutfall hennar og vinnutími ráðist einkum af því hvenær barnsfaðir hennar, eða eftir atvikum annar aðstandandi, geti séð um syni hennar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að framangreindar skýringar kæranda geti ekki talist gildar í skilningi 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Eins og fyrr segi hvíli rík skylda á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá felist meðal annars í virkri atvinnuleit samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara og óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf sé að ræða. Vinnumálastofnun vísi jafnframt til athugasemda með 17. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar, en þar sé sérstaklega vikið að tilvikum sem þessum. Þar segi að hinn tryggði þurfi að uppfylla það skilyrði að vera í virkri atvinnuleit, þó hann sé í hlutastarfi á móti greiðslum atvinnuleysisbóta. Í því felist meðal annars að hann sé reiðubúinn að taka störfum sem bjóðist og feli í sér hærra starfshlutfall en það starf sem hann gegni. Þá vísist jafnframt til athugasemda með 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í frumvarpi sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem segi að ekki skipti máli hvort það starf sem atvinnuleitanda bjóðist sé fullt starf eða hlutastarf þar sem mikilvægast sé að hinn tryggði verði aftur virkur á vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds sé ljóst að mati Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendur geti ekki hafnað störfum á þeim forsendum að þeir séu þegar í hlutastarfi. Jafnframt árétti stofnunin að á umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta hafi hún tilgreint að hún óskaði eftir fullu starfi.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ekki haft þar að baki gildar ástæður, sbr. 4. mgr. 57. gr. sömu laga. Því beri henni að sæta tveggja mánaða viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda þann 19. maí 2023 miðlað í starf hjá B ehf. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun þann 22. maí 2023 að kærandi hefði hafnað starfinu þar sem hún væri þegar með vinnu. Kærandi hefur vísað til þess að ástæða þess að hún hafnaði umræddu starfi sé sú að vinnutími starfsins henti henni ekki vegna umönnunar barna hennar. Einnig sé hún í hlutastarfi með möguleika á fullu starfi þegar barn hennar komist inn á leikskóla. Þar að auki glími hún við frjókornaofnæmi.

Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun skuli líta til umönnunarskyldu vegna ungra barna þegar stofnunin meti hvort höfnun á starfi hafi verið réttlætanleg. Í athugasemdum með 57. gr. í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er ítrekað að það að hafa ekki barnapössun fyrir ung börn á dagvinnutíma teljist ekki réttlæta höfnun á starfi samkvæmt ákvæðinu. Fyrir liggur að umrætt starf hjá B ehf. var á dagvinnutíma. Úrskurðarnefndin metur það svo að skýringar kæranda, þess efnis að hún hafi hafnað starfi vegna umönnunarskyldu sona hennar, réttlæti ekki höfnun á starfinu.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er einnig ekki réttlætanlegt að hafna tilboði um 100% starf á þeirri forsendu að unnið sé hlutastarf. Úrskurðarnefndin bendir á að í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit samkvæmt 14. gr. en í því felst meðal annars að hafa vilja og getu til að taka starfi, án sérstaks fyrirvara, sbr. d. liður 1. mgr. ákvæðisins og að vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu, sbr. f. lið 1. mgr. ákvæðisins.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að allar upplýsingar um vinnufærni umsækjanda skulu koma fram í umsókn um atvinnuleysisbætur og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum. Kærandi tilkynnti ekki um frjókornaofnæmi með umsókn um atvinnuleysisbætur. Þá liggur fyrir að hún hefur ekki lagt fram vottorð sérfræðilæknis því til stuðnings og ekki áður tilkynnt stofnuninni um skerta vinnufærni sína, sbr. 4. mgr. 57. gr. laganna. Því metur úrskurðarnefndin svo að skýringar kæranda um frjókornaofnæmi réttlæti ekki höfnun á starfinu.

Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á starfinu, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. júní 2023, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum